30.4.04

Leiðinlegt fyrir þá sem voru að spá í T in the park, það er uppselt. Verð að gefa Nonna big-up fyrir að ýta á að við keyptum miða strax, ég sem ætlaði að bíða fram að mánaðarmótum!!

Guð gefi okkur gott grillveður á morgun, amen

29.4.04

Fékk sjöu í prófi, inngangi að uppeldisvísindum og er með samviskubit yfir því! Afhverju? jú afþví að ég byrjaði að redda mér glósum úr efninu á miðvikudagskvöldi (notabene glósum, ekki bókum.) og prófið var á föstudagsmorgni. Ég klúðraðist einhvernveginn í gegnum þetta og hélt ég væri í besta falli á mörkunum með fimmuna. En nei, ég er greinilega bara svona miklu klárari en ég hélt :) Verst að það sér ekki fram á eins mikið einkunnagóðæri í öðrum fögum þar sem skólinn hefur setið á hakanum í of langan tíma núna.

Fékk mér boxset með því besta úr Monty Python þáttunum gömlu af BBC, fjórir DVD diskar sem er yndislegt að nota til að halda sér frá náminu! Ministry of sillywalks og Spanish inquisition sketsjarnir ásamt fullt af fleira efni. djöfull eru þeir fyndnir.

Hvort kemur góðaveðrið með prófunum eða prófin með góða veðrinu? óþolandi.

26.4.04





21.4.04

Yeeehaw... Ykkar einlægur ásamt háloftahækjunni Jóni Bergmann eru búnir að festa kaup á miða á T in the park ásamt flugi þangað og heim. Þvílík gargandi snilld. förum út á fimmtudegi og heim á þriðjudegi, þetta getur ekki orðið að öðru en stanslausu stuði! Annars verð ég nú líklega í fríi mestallan júlí, kærkomið þar sem ekkett varð úr sumarfríi í fyrra. Í lok júlí er mamma svo búin að redda mér smá vinnu á Blúshátíð í Telemark í Noregi svo að ég fer þangað. Verð líka að fara að kíkja á gömlu, hún er búin að kaupa sér hús og svona, eða eiginlega tvö hús. Það er nefnilega "lítið gestahús" í garðinum, 36 fermetrar á tveimur hæðum!! Næstu tvo mánuði verð ég að öllum líkindum að vinna 100% sem framkvæmdastjóri Samfés en í ágúst fer þetta í 50% aftur, aldrei að vita nema ég sæki um það djobb.

Eníveis, er að fara til Brussel í fyrramálið og fram á sunnudag. Er djamm í kvöld? hvernig er það?

Gleðilegt sumar ;)

17.4.04

Mikið búið að ganga á síðustu viku. Veit reyndar ekki alveg hvar ég á að byrja. Er að spá í að nota samlokuaðferðina; segja frá einhverju skemmtilegu, síðan e-u leiðinlegu og svo skemmtilegu aftur. Byrjum á miðvikudeginum í síðustu viku þar sem við vorum að spila á Stúdentakjallaranum. Það var mjög gott gigg og troðfullt hús til lokunar. Við komumst að því að við erum komnir með massa gott og mikið prógramm, spiluðum sleitulaust í þrjá og hálfan tíma og áttum fullt af lögum eftir. Fimmtudagurinn fór að mestu leiti í vinnutengd mál sem spurðu ekki að því hvort að það væri rauður dagur eða ekki. Á föstudaginn ákvað ég svo að skella mér til Ísafjarðar! Ég og Emmká keyrðum vestur á föstudagsmorgun og fengum að krassa í Gamla Apótekinu sem var fínt. um kvöldið skelltum við okkur svo ásamt fullt af liði á Írafársball á Hnífsdal, Viggi var svo góður að redda manni inn sem var vel. Ballið var hörku gott hjá þeim, langt síðan ég hef farið á svona ekta sveitaball :) Svo urðum við náttla að vera massa grúppíur og fórum í rútunni með bandinu í e-ð súrt eftirpartý þar sem lítið annað gerðist markvert en að trommarinn í Ber strippaði.

Á laugardagskvöldið var svo aðalatriði helgarinnar í gömlu íshúsi niðri við Ísafjarðarhöfn. Rokkhátíð alþýðunnar "Aldrei fór ég suður". Þetta var magnað dæmi og stemmningin var engu lík. Þarna var maður í sirka átta tíma ýmist að hlusta á eitthvað af þessum brilljant tónlistaratriðum sem voru á dagskránni þar sem topparnir voru að mínu mati Funerals, Trabant, Mugison og Dóri Hermanns (ekki spyrja) eða að maður sat í bjórtjaldinu sötrandi 300króna öllara með rokkurum smáum og stórum í bland við ísfirskar húsmæður í krumpugöllum á meðan maður skýldi sér fyrir snjóbylnum og hlýjaði sér við lítinn gasofn í góðra vina hópi. Brilljant!

Sunnudagurinn var tekinn frekar snemma, fórum yfir á Þingeyri til að skoða æskuslóðir undirritaðs. Það var mjög sérstakt að koma aftur þangað og gomma af minningum sem duttu í kollinn á manni í þessum bíltúr. Svo fengum við þessa brilljant hugmynd að skella okkur bara suður frá Þingeyri. Eftir að hafa rétt sloppið í gegnum færðina og yfir helstu heiðar milli Dýrafjarðar og Stranda föttuðum við að hugsanlega gæti allt verið lokað þar sem það væri nú páskadagur, mjög gáfulegt. Fljótlega uppúr hádegi fór hungrið að segja til sín og ekkert til í bílnum nema Kólus páskaegg! Þannig að við þurftum að aka alla leið í Borgarfjörðinn étandi kúkusúkk og þrista sem við skoluðum niður með vatni úr lækjum. En ferðin frá Ísafirði í Hreðavatnsskála tók um það bil átta tíma!

Mánudagurinn fór algerlega í vinnu fram á nótt við miður skemmtilegt mál sem kom upp hjá Samfés. Þið eruð kannski búin að heyra um það í fréttum en frakvæmdastjóri samtakanna dró að sér um fimm kúlur og við í stjórninni þurftum að taka á því. Það endaði allt eins farsællega og hægt var og hann greiddi allt til baka og var leystur frá störfum. Ég var beðinn um að taka að mér að sinna djobbinu hans allavega fram yfir aðalfundinn sem var á fimmtudaginn. Ég gerði það að sjálfsögðu og við komumst stórslysalaust í gegnum hann. Sá fundur var haldinn í Örævasveit og var bara helvíti gaman. Ég er sem sagt að fara að skoða mín mál á mánudaginn varðandi hvort ég taki ekki þessu djobbi í einhvern tíma bara, þarf að skoða þetta á rólegu nótunum með samstarfsfólki og yfirmönnum í Frosta.

Nenni ekki að skrifa meira þó að ég hafi aldrei þessu vant frá alveg helling að segja, ætla að taka einn blogghring og koma mér svo í sæng. Árshátíð og köfunarkennsla á morgun, spennandi bara...

6.4.04

Skoðið þetta í tilefni komandi daga ;) (fínt að hægrismella og velja save target as)

Vorblíða hvað?! þetta lítur einstaklega vel út í gegnum gluggann þegar maður er óhultur frá kuldanum, svo stígur maður út í stuttermabolnum og hörbuxunum og frýs í sporunum! svei þér vetur! þú ert allt of langur.

Minni á djamm á Stúdentakjallaranum á miðvikudagskvöldið, góð leið til að byrja páskaruglið ;o) Ég, Maggi og Davíð verðum að spila þar og hver veit nema að við fáum góða gesti, Sérhljóðasöngvarann, Popphetjutenórinn og hamingjusama blúsarann. Húsið opnar rétt eftir hádegi, endilega kíkja þangað á leiðinni heim úr skóla eða vinnu, svo byrjum við að spila um tíu leitið. Vinsamlega ef þið eruð utan af landi, stundið nám í verkfræði og farið í lopapeysum á djammið, veriði heima hjá ykkur eða kíkið á Felix í staðinn.

Fékk mér lítið páskaegg í gær, þar var málsháttur; "ekki skal kanna dýpt fljóts beð báðum fótum" hmmm, segir það sig ekki nokkuð sjálft? Segir manni að ana ekki út í hlutina áður en að skoða þá vel, hugsanlega þarf ég að skoða þennan málshátt reglulega hér eftir þar sem ég hef hingað til oft grafið mig ofaní einhverjar holur sem ég er heillengi að koma mér uppúr. Ætla örugglega að fá mér Kólus egg fyrir páskana, ætli það sé málsháttur í þeim? veit ekki.

Svo spái ég því að Liverpool takist að enda taplausu törnina hjá Arsenal á Föstudaginn langa. Ótrúleg samsetning að vera Liverpool maður OG bjartsýnismaður.

PS. Af gefnu tilefni skal tekið fram að Stjörnuleit er ekki eitthvað sem að þú vilt komast áfram í næsta hóp í, heldur er það eitthvað sem að þú vilt ekki lenda í í Tollinum.

2.4.04

Haldið'ún Gróa hafi skó?! Búinn að gaula þetta inní mér frá því að ég vaknaði. Langar í kórpartý, það er svo langt síðan og í þeim gat maður alltaf bókað gott geim.

Ég fór á Smúrtsinn í gær og skemmti mér bara mjög vel. Ég er ekki alveg sammála því sem fólk er að segja að maður skilji ekki neitt í þessu og eigi ekki að skilja neitt. Ég allavega lagði einhvern skilning í þetta verk, veit ekki hvort að það var "rétti" skilningurinn en hann virkaði allavega fyrir mig. Leikritið er um fólk, aðallega pabbann í verkinu kannski, sem flýr vandamálin. Fjölskyldan byrjar mjög vel stæð og búandi í þægilegu umhverfi en um leið og eitthvað vandamál kemur upp (í verkinu bara kallað hávaði) þá flýr fjölskyldan í aðra íbúð. Pabbinn og mamman sópa vandamálunum undir teppið og gleyma þeim strax og lifa frekar á einstaka gleðilegum minningum eins og brúðkaupi sínu. Dóttirin (Lovísa) er sú eina, fyrir utan kannski ráðskonuna, sem leyfir sér að muna eftir því sem þau áttu áður, allir hinir eru í bullandi afneitun. Í lok verksins er svo Pabbinn búinn að missa allt, þar með talda fjölskylduna sína útaf þessari bilun að geta ekki feisað hávaðann. Ein persónan í verkinu var strákur sem ýmist stóð eða sat á sviðin allan tímann og var laminn í hakka við og við, held að hann hafi átt að standa fyrir skynsemi eða sannleikann eða eitthvað svoleiðis, hann var barinn niður af foreldrunum þegar verið var að tala um hávaðann og fortíðina. Ég allavega skemmti mér vel.

Almenn Flottheit verða svo annars á Stúdentakjallaranum miðvikudaginn 7. apríl! Frítt inn og góður díll á barnum fyrir þá sem vilja. við byrjum örugglega um 22:00. Endilega látið sjá ykkur.

Páskarnir eru að koma, hvað á maður að gera af sér? Langar á Ísafjörð á Rokkhátíð Alþýðunnar, það gæti verið gaman.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?